<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, október 10, 2006

BíóferðIN mín 

Nú skal ég segja ykkur dálítið markvert.
Ég var að koma úr bíó. Jahérna.
Já, maður er ekki alveg gróinn við sófann, ha? Ó, nei. Skellti mér í bíó í fyrsta sinn síðan ég man ekki hvenær. Ég var að reyna að fletta því upp hér á blogginu hvenær ég fór síðast í bíó en ég finn það ekki, svo langt er síðan. Bíóferð er orðin svo merkilegur þáttur í lífi manns að það þarf að skrá hana sérstaklega! Ég man að þegar Vera var nýfædd fór ég á Oceans 11 og mundi ekkert þegar ég kom út sökum brjóstaþoku og mömmuparanoju, og svo eitt kvöld fyrir langalöngu ákváðum við Viggi að hressa upp á andann og skella okkur í bíó. Við völdum einmitt þá ofurhressandi mynd Der Untergang, sem fjallaði um Hitler og hans geðheilsu. Ég man ekki hvenær þetta var en ég man að ég kom ekkert sérlega hress úr bíó og geðheilsan var verri ef eitthvað var.

Eins fastar í prógramminu og bíóferðir voru þegar maður var barnlaus þá eru þær nú næstum með öllu horfnar. Reyndar fer Viggi oftar en ég, ég hef einhvern veginn ekki fundið þörfina. Eða nennt að redda pössun fyrir svona lítið dæmi. Það er reyndar líka annað í þessu, mér finnst flestar myndir leiðinlegar og það er jú dálítill galli ef maður ætlar í bíó. Finn sjaldan eitthvað sem mig langar að sjá.

Ég man þegar ég var yngri og heyrði í fólki sem sagðist ekki hafa farið í mörg ár í bíó. Út af börnunum, enginn tími, vesen og allt það. Man að þannig ætlaði ég ekki að vera. Það var ákveðinn mælikvarði að vera hreinlega dottinn úr umferð, gamall og þreyttur.

En ekki ég - neineineinei, í kvöld fór ég nebblega í bíó. Kvikmyndahús. Það jafnaðist næstum á við að fara út að dansa, svona á venjulegu grámyglulegu þriðjudagskvöldi. Munið sem sagt að bjóða mér í bíó reglulega, en ég má velja myndina takk.

Heyrumst,
sjáumst,
elskumst,
í bíó,
E

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker