<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, september 25, 2006

Vera og sá 25. 

Í dag er sá 25. og Vera á sitt mánaðarlega afmæli. Alltaf hollt að halda upp á litlu sigrana ásamt því sem þetta gefur mér tilefni til að skrifa aðeins update á dömunni (það er ekki eins og ég tali mikið um hana fyrir!)

Þá er Vera orðin 2 ára og 2 mánaða. Spræk sem aldrei fyrr. Og líka orðin ansi frek. Eða ég ætla að ákveða að kalla þetta ákveðni, þoldi ekki þegar ég var kölluð frek þegar ég var lítil. Ég var bara rosalega ákveðin. Svo er hún líka stríðin og sniðug, söngelsk og sjónvarpsfíkill. Fær samt bara að horfa á ákveðinn skammt, aðallega þegar mamman þarf að taka til eða gera eitthvað mjög mikilvægt í friði fyrir henni. Vera situr nefninlega grafkyrr fyrir framan næstum því allt barnaefni - jafnvel þótt spólan væri 4 tímar. Hún er farin að syngja fyrir sjálfa sig af og til þegar hún er að leika sér og einnig heyri ég stundum í henni uppi í rúmi þegar hún á að fara að sofa. Þá syngur hún yfirleitt t.d. Allir krakkar, Litlu andarungarnir, fyrsta erindið í Sofðu unga ástin mín, Dansi dansi dúkkan mín, Bí bí og blaka, lagið um fingurna og Kalla litla kónguló.

Vera er komin með svaka mikinn orðaforða, kann langflesta litina og telur upp að 20. Hún er líka forvitin því ef einhver hringir verður hún að fá að vita hver það var. Þegar ég sótti Veru á leikskólann í dag sagði hún við mig voðalega sár: Mamma, ég meiddi mig. Bríet Dalla meiddi mig. Ég gráta mikið - og benti á klór á kinninni á sér. Mamman kyssti á meiddið og þá sagði mín frekar reið: Ég líka meiða Bríet Döllu.
Fyrsta alvöru girlfightið er s.s. komið. Þegar ég spurði leikskólakennarann út í þetta orðaði hún það þannig að stúlkurnar væru bara aðeins að prófa sig áfram...

Aðrir molar sem ég man frá Veru undanfarið eru t.d.:

- Mamma, leika mig (mamma leiktu við mig)
- Ég leira á mig (Vera var að leira og það klíndist leir á hana).
- Nóttin er þarna (og bendir á dimmt herbergið sitt) en ekki þarna (og bendir fram í birtuna - tengingin við myrkrið og nóttina s.s. komin (o, ó, hvað segi ég í vetur!)
- Mamman: Vera, komdu að borða matinn þinn. Vera: Nei, takk mamma mín.
- Pabbinn: Nú ætlar pabbi að fara í sturtu. Vera mótmælti og vildi fá hann að leika og sagði því ákveðnum tón - Nei, takk pabbi minn!
- Ef Vera er vælandi inni í rúmi og vill ekki fara að sofa, segir hún yfirleitt voða aum þegar ég kem inn: Vera gráta miki mamma mín.
- Vera var að telja puttana og sagði svo: Þessi mamman (benti á þumalinn), þessi pabbinn (benti á vísifingurinn) og þessi bróðirinn (og benti á hina fingurna). Jahérna, eitt er víst hver ræður á því heimilinu hehe!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker