<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, ágúst 21, 2006

Heppna ég 

Einn sólríkan dag í Stokkhólmi sat ég úti í garði hjá Dódó frænku og sleikti sólina og lék við litlu dýrin okkar. Þá var mér litið niður í grasið og augun staðnæmdust strax við fjögurra blaða smára. Sá fyrsti sem ég hef á ævinni fundið, enda ekkert sérlega mikið að eyða tíma í að leita að fjögurra blaða smárum úti á túni svona dagsdaglega. Ég týndi hann svaka glöð og fann heppnina streyma um mig þá þegar. Þegar mér varð aftur litið í grasið og sá strax annan góðan smára og það með FIMM blöðum! Ég auðvitað leitaði svo meira því ég var farin að halda að í Stokkhólmi yxu bara stökkbreyttir smárar en nei, allir hinir voru venjulegir þriggja blaða.

Ég þurrkaði þá og setti inn í bók og tók með mér heim til Íslands. Og svo gleymdi ég þeim og auðvitað týndi þeim. Svo birtist allt í einu annar um daginn, hálflaskaður en samt. Það var þessi fjögurra blaða. Og auðvitað mun enginn trúa sögunni af þeim fimmblaða! Dódó getur samt vitnað til um það! Ég hlýt að verða svakalega heppin, eða kannski var bara heppnin að finna hann aftur. Og hvað gerist svo?

Hvað er heppni? Skapar maður heppnina sjálfur eða er það einhver annar sem sér um að gera fólk heppið eða óheppið? Eru örlögin ráðin eða ræður maður einhverju? Ég trúi því nú að mestu að maður velji hlutina yfir sig, en svo er jú hægt að vera heppinn t.d. í happdrætti en ég er ekki viss um að sumir séu "heppnir" í ástum og aðrir ekki. Annað hvort er fólk að finna sig í hvort öðru eða ekki, en kannski er það heppni að maður finni einn af þeim réttu sem hentar manni, veit það ekki. Kannski henta manni milljónir manna og kannski ekki.

Heppni er kannski ekki rétt notað í málinu. Mikið ertu heppin með vinnuna þína, heppin að eiga Veru... er þetta heppni? Er þetta ekki bara fullt af vinnu og skipulagi og metnaði og brjálæði? Held það. En samt verð ég að segja að ég hef verið heppin í lífinu hehe, það er ekkert annað orð til yfir þetta. Dugnaður og áhrif annars fólks hefur mikil áhrif á leið manns í lífinu - þess vegna er maður kannski frekar heppinn. Þannig hlýtur heppni að vera afleiðing einhvers annars en pjúra loftkenndra örlaga.

Ég er heppin með að hafa komið tiltölulega heil undan klikkuðum skilnaði foreldranna og mikilli gelgju. Varla var það heppni að vera góð í sundinu því ég æfði eins og motherfucker 9x í viku en hver veit, kannski voru bara allir hinir óheppnir að vera lélegri en ég. Var ég heppin að hitta Vigga, en svo kannski ansi seig að halda í hann hehe? Heppin að hitta frábærar stelpur í MH þar sem fólk raðast random á borðin, en varla svo heppin að fá þýskuverðlaunin neeeeeeiiiin, óheppin eða kannski bara of fátæk til að komast ekki í útskriftarferðina með stelpunum til Tyrklands, heppin að fá tækifæri sem ég samt bjó til sjálf að komast til Sviss að vinna og brettast í Ölpunum. Heppin að berjast fyrir því að fá vinnu og standa mig í Gallup, heppin að eiga svona frábært barn sem ég berst með klóm og kjafti að verði ekki frekja dauðans og illa upp alið grey.

Já, heppin eða ekki. Á næstunni er margt að gerast. Rándýr húsbygging þar á meðal og kannski þýðir þetta að okkur muni farnast það verkefni vel úr hendi og við munum alla vega ekki tapa á framkvæmdunum. Að Veru eigi eftir að ganga vel í leikskólanum og vera ánægt barn. Að ég muni skara fram úr í vinnunni og Viggi fái draumasmiðsverkefnið sitt hvað sem það nú er. Að allar skuldir hverfi og við förum í brettaferð næsta vetur. að ástin blómstri. En varla vökvar heppnin okkur samt.

Hvað sem þetta þýðir ætla ég nú að geyma smárann. Hann á að boða lukku og það skal hann gera. Með elju minni og aðstoð.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker