<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, maí 28, 2006

Veruleysi 

Vera var í láni hjá afa Sigga og ömmu Jónu frá því í gærdag og fram að háttatíma í kvöld. Ástæðan var engin sérstök, bara að gista hjá þeim og kynnast þeim betur. Og kannski gefa mömmunni og pabbanum smá "frí".

Strax eftir að ég skilaði Veru af mér helltist yfir mig þessi svakalega þreyta. Þegar maður er með krakkann er það einhvern veginn eins og maður keyri sig áfram á útopnu og leyfi sér einhvern veginn ekki að verða þreyttur. Svo strax og hún fór í lán varð ég svona líka svakalega þreytt að ég ætlaði varla að ná að keyra heim með opin augun. Lá svo uppi í sófa svaka hress eða þannig, undir teppi, á sjálfu kosningakvöldinu. Ég var þreytt og stóð mig líka að því að vera smá sorgmædd. Að hafa Veru ekki sofandi inni í herbergi og geta ekki kíkt á hana af og til sofandi sæta. Alveg klikkað. Og ég eyddi s.s. barnlausu kvöldinu undir teppi að fylgjast með kosningasjónvarpinu með öðru og dottaði inn á milli með hinu. Ég sem ætlaði á kosningadjamm!

Undir morgunn sakanði ég hennar aftur. Það kallaði engin Vera á mig og kom upp í rúm til að kúra og knúsast. En ég komst nú alveg yfir það og svaf eins og steinn fram að hádegi sem hefur ekki gerst í Verutíð.

Ég var búin að gleyma því hvað maður kemur miklu í verk barnlaus. Ég er búin að vera þvílíkt dugleg í dag og tasklistinn styttist um helming á no time. Það er búið að þvo þvottinn endalausa og meira að segja handþvo lopapeysu sem er ekki létt verk, það er búið að kantskera öll beðin og reyta njóla í maaarga svarta ruslapoka, það er búið að fara með haugfulla kerru í Sorpu af drasli úr kjallaranum og garðinum, það er búið að slá garðinn (í fyrsta sinn! gaman gaman - og ekki eitt ofnæmishnerr) það er búið að taka til í íbúðinni niðri sem er á leið í leigu og ganga frá ýmsum öðrum smálegum hlutum sem annars hefði tekið mig ár og aldir með Veru. Svo Veruleysið var ekki all bad. Ó nei.

Klukkan fimm var ég samt aðeins farin að vanta hana og leit í sífellu að bílastæðinu til að athuga hvort að bíllinn afa og ömmu færi nú ekki að renna í hlaðið. Hringdi svo bara í þau til að hætta þessari örvæntingu og fékk þá þær fréttir að þau ætluðu ekki að skila henni fyrr en eftir kvöldmat. Jæja þá. Ég reytti þá bara eitt beð í viðbót í stóra garðinum mínum. Þegar Vera kom heim var hún alsæl, sagði mér sögur af ömmu og afa og Gínu voffa sem ég skildi tæplega, en samt. Og svo fór hún að sofa.

Hvað maður var öflugur barnlaus, sko þegar þreytan var farin eftir hvíldina. Ég fatta samt ekki núna, og er hreinlega búin að gleyma því, hvað maður náði að gera við allan tímann sem maður hafði áður en Vera varð til.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker