<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Móðir í hjáverkum 

Það er ekki beint ég - en samt.
Var að koma heim úr vinnunni og klukkan að ganga 23:00. Mér finnst alltaf svo sárt þegar ég vinn þessa löööööngu daga og sér músina mína ekki neitt. Bara sofandi fallega þegar ég kem heim. Þá er allt svo tómt hér heima. Og inní mér. Vantar að hafa hana í kringum mig ískrandi glaða og spræka, sýnandi mér dótið sitt, lesa með henni og knúsa hana í ræmur. Mig langar næstum því að vekja hana núna, bara til að fá að finna hana. Get þó huggað mig við það að alla aðra daga sæki ég hana kl. 16 og eyði með henni gæðatíma fram að háttatíma.

Var að klára bókina Móðir í hjáverkum í gærkvöldi. Hún fjallar jú um móður sem vinnur svo mikið að hún hefur ekki tíma fyrir börnin sín. Eða manninn sinn. Og þjáist af samviskubiti yfir því að sjálfsögðu. Þetta er skemmtileg og fyndin bók. Svolítið ýkt á köflum en ég get séð mig í mörgum aðstæðunum eins og margar mæður án efa. En eftir að ég lauk síðustu blaðsíðunni í gær fór ég næstum því að gráta. Ég bara fékk þunglyndiskast í svona heilar 5 mínútur og fannst allt ömurlegt og ómögulegt. Bókin endaði ekkert sérlega illa en það bara þyrmdi eitthvað yfir mig eftir lesturinn. Málið er að ég sá aðallega pabbann í hlutverki móðurinnar í bókinni sem sá börnin sín praktikklí aldrei.

Sko, Vera er orðin svo stór að hún er farin að fatta að leita að pabba og kalla á pabba. Og röddin í henni þegar hún kallar á pabba oft á dag er alveg til að kremja eitt stykki hjarta. Svo þegar pabbi mætir t.d. í mat eða þá að við kíkjum stutt á hann í vinnunni bara til að hún sjái hann eitthvað, verður hún himinglöð og byrjar undir eins að vinka honum bless. "Baaa- baaaaa (bæ, bæ = nýtt!). Já, hún tengir bless og vinka bæ strax við pabbann sem er alltaf að fara. Fara í vinnuna. Fara í vinnuna. Fara í vinnuna. Svo kemur hann heim þegar hún er sofnuð. Stundum nær hann hálftíma með henni áður en hún fer að sofa og þá er kitlað og knúsað í smá tíma fyrir svefninn og þá er aftur vinkað bæ.

Hversdagslífið er okkar Veru. Hversdagslíf pabbans er í vinnunni, ekki með okkur. Svona eins og mömmunnar í hjáverkum. Sem endaði svo með því að börnin hennar vildu frekar vera hjá barnfóstrunni og pabbi þeirra fór frá mömmunni því fjarlægðin hafði slitið þau ómeðvitað í sundur. Eftir síðustu blaðsíðuna sá ég líf mitt splundrast á staðnum og allt í steik.

Þannig er það reyndar ekki, en hei. Dætur og feður þurfa án efa meiri tíma til að bonda en mæður og dætur svo nokkrar mínútur á dag duga hugsanlega skammt. Skilnaðir eru ótrúlega lúmskir og koma aftan að ótrúlegasta fólki sem telur allt vera í góðum farvegi þar til einn daginn er ekkert lengur til staðar til að byggja á. Fjarlægð býr til tómarúm. Ok, það vita allir að það þarf að rækta og vökva og allt það og það ætla allir að gera það, en tími er svo skringilega erfitt konsept í nútímasamfélagi. Alveg merkilegt. Og tími er algjört lykilatriði. Samvera í hversdagslífinu, ekki bara í humri og flugeldasýningum (ekki það að það sé eitthvað mikið að gerast í því hjá okkur samt hehe). En það er erfitt að tala um tíma við mann sem stundar iðnaðinn sjálfstætt hörðum höndum í uppgangi. Þetta snýst nebblega ekki um $, heldur eitthvað allt annað. Kröfur mikilvægra manna úti í bæ um að hann standi sig og alls konar pressu og hluti sem ég mun ábyggilega aldrei skilja.

Móðirin í hjáverkum hætti að lokum að vinna og varð almennileg 100% mamma. Henni dreeepleiddist það reyndar að mestu (fyrir utan faktorinn að njóta barnanna sinna) og fann sér annað sjálfstætt starf þar sem hún ætlaði að ráða tíma sínum sjálf og eyða meiri tíma með börnunum en í hinni vinnunni. Já, einmitt. Pabbinn á þessu heimili getur sagt henni það að hún á eftir að verða miklu meiri fangi hennar eigin vinnu en annarrar. Hún byrjar upp á frelsið að gera en svo þróast þetta óvart öðruvísi. Hún verður með sama samviskubitið. Jú, víst er eitthvað frelsi samfara því að vinna fyrir sjálfan sig, en það fer eitthvað lítið fyrir því nú og undanfarið. Þótt ég sé on going lifandi hamrandi reminder!

Ok, þetta endaði allt voða vel hjá hjáverkamömmunni og þau fluttu upp í sveit og allt voða æðislegt og allt í einu þurftu þau enga peninga og ræktuðu bara blóm og hey og allir voða happí. Og hún varð alvöru mamma svo ég eygi von um að vinnualkapabbinn fái tíma og tækifæri til að endurskoða sinn part. Þó svo að ég ætli ekki að flytja lengra upp í sveit en nú er orðið! Ég ætla að byrja á því að reyna láta pabbann lesa þessa bók til að hann geti kannski fattað 5 mínútna þunglyndiskastið mitt í gær sem hann botnaði að sjálfsögðu ekkert í.

En pabbinn skilur mig svo sem sjaldnast, sem er samt allt í lagi. Hann er svo flottur og ágætur að hann tók 5 mínútna kastið mitt alvarlega eins og vanalega. Sagðist hjartanlega sammála mér, þetta gengi auðvitað ekki lengur. Hann reyndi virkilega að finna lausn, en stundum er lausnin svo skrýtin. Hann sagðist sjá góðan tíma fyrir okkur í lok janúar, þegar við verðum flutt í nýja fína húsið... Og bætti svo við að það væri spáð niðursveiflu árið 2008...

Vera verður 4 ára þá...úff! Og það vita flestir að þolinmæði mín er ekki svooo æfð, og varla hennar heldur.

Ég veit að þessi umræddi pabbi er far frá því að vera sá eini sem vinnur mikið og er mikið í burtu. En ég sætti mig bara svo seint við þessa tilveru að fullu. Jú, auðvitað venst hún, en ég vel að berjast í stað þess að venjast!

Í niðursveiflu móðurinnar var því ákveðið að taka eina góða uppsveiflu og sameina familíuna og bruna á Akureyri næstu helgi. Mamman og pabbinn fá að taka nokkrar bunur á brettinu og Vera mun þreyta frumraun sína á snjóþotunni.
Góð byrjun.

Hef heyrt að hversdagslífið á Akureyri sé nebblega helvíti fínt :)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker