<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, september 27, 2005

Amsterdaman ég 


8 Gallupgellur að gellast í Amster Posted by Picasa

Ég fór til Amster um helgina. Farin og komin. Og það var svona líka svakalega gaman. Þetta er beisikklí fyrsta stelpuútlandaferðin sem ég fer í á ævinni. Tók engar útskriftarferðir eða neitt slíkt á sínum tíma sökum báglegrar fjárhagsstöðu. En svo loks var komið að mér og ferðin um helgina var sko stelpuferð í lagi. Meira lagi. Enda Gallupgellurnar engar venjulegar stelpur. Við versluðum af okkur rassgatið og þá meina ég að mín fékk sko góða strengi í bíseppana eftir pokaburð um alla borg. H&M var alveg að gera sig. Og WE og HEMA og og og... Önnur af okkur fékk vöðvabólgu og enn önnur þurfti að kaupa nýja ferðatösku undir góssið. Þið getið rétt ímyndað ykkur fjörið! Mitt nýja æðislega fína dót rétt komst fyrir í þeim töskum sem ég tók með, en ég tók sko eina aukatösku fyrir nýjan varning. Ég fataði Veruna upp frá toppi til táar, allt frá samfellum upp í vetrarúlpu. Já, svona er þetta með blessuð börnin á þessum aldri, þau bara stækka allt í einu upp úr einni stærð og þá þarf hreinlega að fata upp á alla línuna með þeirri næstu. Ekki leiðinlegt! Og svo þarf mamman kanínupels á 3000 kall og ný stígvél á skidogingenting og pabbinn skyrtu og bindi, boli og skó. Og hagsýna húsmóðirin ég keypti allar jólagjafirnar handa börnum stórfjölskyldunnar sem eru jú ekki fá. Jú víst, þetta er allt bráðnauðsynlegt dót! Fyrir líkama og sál.

Annað sem stóð upp úr var að við öskruðum úr okkur lífið í draugahúsinu í Madame Tussaud þar sem lifandi leikarar í gervi vaxbrúða hræddu okkur upp úr skónum. Ég var svo paranojd þegar ég kom út að ég hélt áfram að öskra á safngesti sem ég hélt að væru vaxmyndir og hreyfðu sig í áttina að mér. Frekar fyndið. Greyið fólkið! Svo tjillaði ég heilmikið og drakk slatta af bjór og víni, en veðrið lék við okkur. Þetta var dágóð framlenging á sumrinu fyrir okkur því það var 20 stiga hiti og sól nánast allan tímann. Og ég get svarið það að sólin skein meira að segja líka inni í búðunum! Alla vega í hausnum á mér. Ég ætlaði á Van Gogh safnið en röðin var of löng fyrir mína þolinmæði, svo ég lét nægja að kaupa mér bara plakat með mynd eftir hann. Æðislega fínt í nýja húsið mitt. Svo tjillaði ég á flóamarkaði með einni vinkonunni, skil ekkert í því að enginn önnur hafi ekki haft á huga á því! Ég elska flóamarkaði. Og hreinlega alla markaði. Mér finnst þeir líka yfirleitt gefa dágóða vísbendingu um menningu þess staðar sem þeir eru á. Allt að gerast á mörkuðum, hvort sem er í Laos eða Amster. Þar fann ég m.a. marjúanasleikipinna og fiðrildasokkabuxur. Við röltum um bæinn og kíktum á kaffihús þar sem matseðillinn var í öðru formi en ég er vön. Tælenskt gras eða svartan afgan? Rauða hverfið var frekar sofandi miðað við fyrir 10 árum þegar ég og Viggi töltum þar um á bakpokaferðalagi, en hórurnar hljóta bara að hafa það betra og vinna í búð eða eitthvað núna. Ég veit það ekki, þær voru jú all margar en ég fékk það samt á tilfinninguna að hverfið væri minna og alls ekki eins bissí, og samt vorum við staddar þar á föstudagskvöldi. Æj, ég vorkenndi þeim svolítið. Nenni samt eiginlega ekki að byrja hér á hórupælingum. Þær eru efni í bók. Segi samt að ég held að enginn verði eða þurfi að selja sig. Það sé á endanum þegar búið er að taka allt annað í burtu ekkert annað en ákveðin græðgi og sálarsjálfsvíg um leið. En ekki meira um það hér.

Ég var stödd í götóttu landi, sbr. Holland = Hollow land, og því ekki úr vegi að kanna síkin milli húsa og hverfa á siglingu. Húsin halla vel fram eða aftur og til hliðanna sökum þess hversu ónýtar undirstöður húsanna eru vegna raka. Einhvern tímann kannski fellur Amsterdam eins og spilaborg, hver veit. Ef þetta heldur áfram að gerast. En húsin eru krúttleg og flott. Líka þau sem ”byggð” eru á síkjunum. Bátahúsin. Alveg merkilega ósmekklegt og ljótt og ég skil ekki hvernig nokkur maður hafi áhuga á að búa í slíku híbýli. En það er eitthvað sjarmerandi við það bara af því þetta er í Amsterdam. Ryðgaðir dallar fullir af fnyk eftir efnahvörfin sem eiga sér stað þegar vatnið étur stálið. Úff. Á siglingunni var það eina sem ég heyrði af leiðsögninni, að í Amsterdam eru helmingur íbúanna sem býr aleinn, s.s. heimili sem telur aðeins einn. Pínu skrýtið og einmannalegt finnst mér.

Í Amster var eins og ég væri í öðru lífi en því sem ég lifi núna. Engin Vera. Enginn Viggi. Bara stelpur og sjopping. Í hollenskri sól á ísköldu íslensku hausti. Svolítið eins og að vera sautján. Engar höftur, ekkert til að hafa áhyggjur af. Frekar skrýtið. Ég saknaði Verunnar að sjálfsögðu en hugsaði samt ekki mikið um það. Naut stundarinnar því ég vissi að hún biði mín heima. Og heima ljómaði ljósið mitt þegar mamman kom aftur heim í lífið á H6. Hún spriklaði og brosti og faðmaði mig heillengi eftir að ég kom. Og jesús minn hvað það var gott. Næstum því eins frábær tilfinning og þegar ég fékk hana fyrst í hendurnar. Og reyndar fæ ég þessa tilfinningu að einhverju leyti eftir aðskilnað næturinnar á hverjum einasta morgni þegar ég sé Veru nývaknaða og sæta. Ég gerði að sjálfsögðu nákvæmlega það sama þegar ég kom aftur heim og ég gerði eitt sinn grín að, stökk fyrst á barnið og knúsaði og kyssti það á meðan pabbinn þurfti að bíða lengi eftir því að fá svo mikið sem ”nei, hæ!” Já, mömmulífið er bara svona.

Amsterdam kom á óvart. Stelpurnar áttu þátt í því. Þetta er lítil stórborg sem ég kann vel við. Ódýr með góðan bjór og góðan mat. Skemmtilegum görðum og hverfum. Ég gerði ágætlega margt og mikið á þessum þremur dögum, en það sem á endanum stóð upp úr var hversu vel við Gallupgellurnar náðum vel saman sem hópur. Við vinnum jú saman og kjöftum saman í saumó en þetta var pínu öðruvísi. Það komu ekki upp nein leiðinleg stelpuissue eins og er svo algengt að gerist hjá stelpum. Við smullum saman og það gekk allt upp. Fyrir einhverja kann þetta að hljóma ekkert merkilegt highlite. Og það er jú ábyggilega rétt að það hefði verið jafn gaman hjá okkur í Þórshöfn í Færeyjum (þ.e.a.s.ef það eru einhverjar búðir þar!) en Amsterferðin verður samt ógleymanleg fyrir það sem hún var og gaf.

Hér eru nokkrar vel ritskoðaðar myndir frá Amster, en vonandi fyrirgefa vinkonurnar mér að sýna þær útúrfreðnar í sexsjoppum og á sexsjóum...hehe

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker