<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júlí 25, 2005

Eins árs Vera 


Vera Víglunds varð eins árs á Krít Posted by Picasa

Þá er eðaldaman hún Vera Víglunds orðin eins árs í dag, þann 25. júlí! Mömmunni finnst eins og hún hafi fæðst í gær. Oh, gleymi aldrei tilfinningunni þegar ég fékk Veru til mín í fyrsta sinn. Ólýsanlegt. Vera hélt upp á daginn á Krít þar sem hún synti í sjónum og buslaði í lauginni í sól og góðum gír eins og vanalega. Hluti af afmælisdeginum fór líka í flug heim á Frón, en það voru bara 6 klukkutímar, ekki neitt... eh, eða þannig. Ekkert mál fyrir Veru en aðeins meira moj fyrir foreldrana. Afmælisbarnið fékk extra trítment og þolinmæði frá foreldrunum í þessu langa afmælisflugi svo þetta var ekkert mál.

Vera er orðin svo stór og klár. Hún er orðin 77 cm og 10,250 kg. Fyrir áhugasama þá er hún einu staðalfráviki fyrir ofan meðaltal í hæð og hálfu staðalfráviki fyrir ofan meðaltal í þyngd. Svo segja má að hér sé sko ekki um neina meðalmannsekju að ræða heldur eðalVeru sem að sjálfsögðu fer yfir meðallag í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Eða það vill mamman meina! Sætust og klárust og best í heimi :) Til gamans má geta að mamman sjálf var líka 77 cm en ekki nema heil 13 kíló!! Bollan sú. Mamma mín þurfti að klippa upp í allar nærbuxur á mig til að koma þeim yfir lærin og fékk send föt frá systur sinni í Ameríku sem voru keypt í búði fyrir extra fat kids...

Vera tók þvílíkt þroskastökk í fríinu með foreldrunum á Krít undanfarnar 2 vikur. Enda hefur litla fjölskyldan ekki eytt svona miklum tíma saman frá upphafi. Foreldrarnir voru jú með þúsund prósent athygli á dömuna allan sólarhringinn í útlandinu, Vera í nýju spennandi umhverfi og fullt af fólki til að göslast með hana og leika. Svo þroskinn stóð ekki á sér. Á Krít lærði Vera m.a. að sýna á sjálfri sér, með miklum tilþrifum, þegar hún er spurð hvar bumban, nebbinn, táslurnar, puttarnir, eyrað og hárið er. Svo veit hún auðvitað líka hvar nebbinn á mömmu og pabba er og sýnir okkur oft og iðulega hvar nebbinn á okkur er. Svo mjálmar hún afar skrækum tóni þegar hún sér kisur, hvort sem er lifandi eða úr tuskum. Greinilega greind þarna fyrir ofan meðallag, hehe!

Annars er Vera hin ljúfasta vera. Hún er með skap og lætur vita hvað hún vill og hvað ekki með væli eins og lítill hvolpur eða þar til gerðu öskri sem hljómar eins og einhver sé að stinga hana í bakið. Já, um að gera að byrja að stjórna með harðri hendi strax! Vera er þvílíkur stuðbolti og er alltaf brosandi og í góðu skapi, er alltaf að dansa, og ekki bara þegar mamman biður hana um að dansa (skilur orðið svo mikið!!) Hún hefur endalausan kraft og leggur sig yfirleitt aðeins um klukkutíma á dag. Eftir að Vera fór að hreyfa sig (sat jú mest á rassinum þar til að verða 10 mánaða gömul) þá er óhætt að segja að hún sé búin að vera á útopnu. Daman hreinlega stoppar ekki. Er alltaf að. Þarf alltaf að vera að skoða allt, út um allt. Af og til stoppar hún við og dundar sér við lestur bóka þar sem hún babblar heilu sögurnar fyrir sjálfa sig, svakalega fyndið. Eða þá að hún situr við eitt aðaláhugamálið sitt undanfarið sem er að raða dollum ofan í hvora aðra eða setja tappa eða lok á hvers kyns flöskur og brúsa. Sólarolíurnar voru því mjög vinsælar hjá Veru á Krít. Lokið af, lokið á, lokið af, lokið á, lokið af...!

Vera er ekki enn farin að ganga sjálf en fer um allt á fjórum fótum, en rassaskriðið hennar hefur þróast yfir í "venjulega" skriðtækni. Eins stendur hún upp við allt og prílar og gengur með. Okkur foreldrunum finnst eins og það sé þó enn dágóður tími í að hún fari að ganga óstudd, en á meðan einbeitir hún sér þá bara frekar að vitsmunalegu hlið sinni :)

Eins árs Veran mín - til hamingju með afmælið!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker