<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, maí 20, 2005

Sundpælingar 

Jæja. Ég fór aftur í sund í morgun. Þvílíkt hress í bragði og spræk. Svaf reyndar aðeins yfir mig því Vera svaf svo vel en ákvað samt að fara og mæta bara frekar of seint í vinnuna. Já, hvað gerir maður ekki fyrir heilsuna!
Sólin skein og ég fékk nokkrar krúttlegar og sumarlegar freknur í andlitið um leið og ég tók kílómeterinn á hælinn. Ég þurfti reyndar að smeygja mér doldið oft framhjá eldgömlum köllum sem syntu aðeins í of miklum hægagangi fyrir sundpíuna mig, og með skýluna girta upp á bringu. En lét það ekki á mig fá. Fór svo aðeins í pottinn og hlustaði á pottaumræður dagsins sem snérust að mestu leyti um veðrið og formannskjörið á laugardaginn. Össi frændi á víst eftir að tapa, en mun samt ekki láta það á sig fá. Gamla fólkið veit þetta allt. En sjáum til hvað gerist. Sundtíminn endaði á því að horfa á eina gamla skokka á sundbolnum á grasblettinum fyrir framan laugina og það minnti mig á ömmu Sillu. Hún hljóp alltaf einn hring í kringum laugina, jafnvel í él og hríð. Svo var einn eldgamall en nautsterkur að taka armbeygjur og annar magaæfingar. Þetta gamla fólk sem stundar laugarnar er eitthvað svo hresst og sprækt.

Þótt amma mín Vala hafi búið í nágreni við sundlaugarnar í Laugadalnum í mörg ár hefur hún því miður ekki haft tækifæri til að stunda sundið. Hún hefur verið sjúklingur í mörg ár, með ýmis konar kvilla.
Og núna liggur hún banaleguna heima hjá sér. Í friði og ró.
Megi Guð, afi Skarpi og amma Silla taka vel á móti henni þegar hún fer yfir í hinn heiminn.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker