<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Íslenska lopapeysan 

Af því lopapeysur eru að komast aftur í tísku læt ég þetta verkefni fljúga um íslensku lopapeysuna. Gerði það í kúrs í mannfræði sem heitir Notagildi og fagurfræði (sama og það sem ég gerði verkefnið um heimilið í). Læt þetta flakka. Óritskoðað eftir 4 ár... gjössovel!

Þetta verkefni fjallar um hina hefðbundnu íslensku lopapeysu, merkingu hennar og fagurfræði. Ég byrja á því að rekja sögu lopans og lopapeysunnar og velti svo fyrir mér mögulegri táknrænni merkingu hennar fyrir Íslendinga og útlendinga, sem og fagurfræðilegum hugmyndum um hana. Þar sem ekki hefur verið skrifað neitt að ráði um hina hefðbundnu íslensku lopapeysu styðst ég aðallega við munnlegar heimildir í þessu verkefni. Ég ræddi meðal annars við þekkta prjónakonu í lopapeysugeiranum og sölustjóra Ístex, sem er fyrirtæki sem framleiðir lopa og fletti hinum ýmsu lopapeysuprjónablöðum og kem til að nota upplýsingar úr þeim.

Ég tel rétt að fara stuttlega yfir sögu íslenska lopans til að byrja með, til að hægt sé að átta sig á sérstöðu íslensku lopapeysunnar og tengja það svo merkingu hennar fyrir íslensku þjóðina. Ef við byrjum á byrjuninni þá komu víkingar til forna, eða árið 874 og settust að á Íslandi. Þeir komu með sauðkindur með sér, sem síðar varð hinn íslenski sauðfjárstofn. Sauðkindin hafði mikil áhrif á þróun lands og þjóðar þar sem hún var lykillinn að afkomu landans, ekki aðeins í formi fæðu, heldur einnig var ull hennar vörn gegn bítandi kulda og hörku norðursins. Það má kannski segja að án sauðkindarinnar hafi verið óbúandi á Íslandi. Íslenska sauðféð er talið einstakt sinnar tegundar en það er af harðgerðum stofni. Hér þróuðust enn frekar eðliskostir fjárins sem gekk frjálst á heiðum á sumrin og þurfti að standa af sér hörð veður á vetrum. Að sama skapi er ull íslensku sauðkindarinnar einstök og hefur eiginleika sem skapa henni sérstöðu miðað við erlenda ull. Ullin hefur þróast í yfir ellefu hundruð ár í norðlægu loftslagi og blautu og köldu veðri. Þróun ullarinnar hefur á þeim tíma verið á þann hátt að hún veiti sauðfénu sem mest skjól í misjöfnum veðrum. Íslenska ullin er sérstök að því leyti að hún er gerð úr tvenns konar hárum, togi og þeli. Togið er langt, gljáandi, fremur gróft og hrindir vel frá sér vatni. Þelið er styttra en togið, fínt, mjúkt, mjög fjaðurmagnað og einangrar vel gegn kulda. Vegna þessa eiginleika er fatnaður úr íslenskri ull léttari, hlýrri og hrindir betur frá sér vatni en fatnaður úr öðrum ullartegundum (Álafoss lopi, Handprjónabækur Ístex).

Orðið lopi er gamalt í málinu, miklu eldra heldur en spunavélar í landinu. Meðan öll ull var handunnin táknaði lopi handkembda ull sem búið var að teygja í lengjur og til undirbúnings spuna. Nafnið hélst svo þegar spunavélar komu til sögunnar. Fyrstu heimildir um lopaprjón eru frá 1916, en þá datt nokkrum hugkvæmum sveitakonum á Vesturlandi í hug að prjóna vettlinga úr óspunnum lopa. Það gerðu þær af brýnni nauðsyn og sögðu ekki neinum frá því. Þá var hefðin að prjóna úr tvinnuðu bandi og þæfa á eftir og líklega hafa menn verið vantrúaðir á að lopinn dygði (Kristbjörg á Ystafelli, munnleg heimild, 12. febrúar 2001; Álafoss lopi, Handprjónabækur Ístex). Á 4. og 5. tug aldarinnar, einkum þó á stríðsárunum, jókst mjög notkun lopa í hvers konar prjón. Strax og farið var að prjóna úr lopa urðu handprjónaðar lopapeysur algengar og eftirsóttar. Hin eina sanna lopapeysa, með tvíbönduðu munstri á hringlaga herðastykki, er í dag búin að vinna sér íslenskan þegnrétt. Saga hennar er þó ekki ýkja löng. Flestir telja hana hafa komið fram á 6. áratugnum og ekki er vitað með vissu hver prjónaði fyrstu peysuna (Kristbjörg á Ystafelli, munnleg heimild, 12. febrúar 2001).

Þrúður Helgadóttir sölustjóri hjá Ístex (munnleg heimild, 12. febrúar 2001), sagði mér að það gengi mýta um að Auður Laxnes, kona Halldórs Laxness heitins, hafi prjónað fyrstu lopapeysuna sem í dag er hin eina og sanna íslenska lopapeysa. Ég sló á þráðinn til Auðar og spurði hana út í þessa sögn. Hún tjáði mér að það væri rétt, hún héldi að hún hafi verið fyrst til að prjóna lopapeysu með hringlaga axlarstykki og minnir að það hafi verið árið 1947. Hún var þá orðin svo leið á þessum lopapeysum sem voru svo illa sniðnar og illa búnar til og óþvegnar sem þá fengust í búðum á Reykjavíkursvæðinu að hún ákvað að gera eitthvað í því. Hún átti fallega bók frá Perú og í henni var mynd af peysu þar sem munstrið náði niður fyrir axlirnar. Henni þótti það afskaplega fallegt og prófaði að prjóna svoleiðis. Það gekk upp hjá henni. Munstrið kom frá henni sjálfri en hún fór eftir norskri peysu sem hún átti fyrir. „Svo bara einhvern vegin komst þetta í tísku“(Auður Laxnes, munnleg heimild, 12. febrúar 2001).

„Handverkskonur milli heiða“ eru ein af mörgum samtökum kvenna sem prjóna lopapeysur og selja í búðir. Ég ræddi við Kristbjörgu á Ystafelli um hennar sýn á íslensku lopapeysuna, en hún er peysunni kunnug og er í þessum samtökum. Hún er 82 ára og hefur prjónað margar peysur um ævina. Hún vildi láta það koma fram hér að það væri þjóðarstolt að lopapeysan skuli halda velli. Hún segir það vera ullinni að þakka. Kristbjörg semur allt munstur sjálf á þeim peysum sem hún prjónar og segir einkenni hverrar prjónakonu yfirleitt koma fram í peysum hennar. Margir segjast til dæmis þekkja peysur Kristbjargar. Hún setur oft fugla, hreindýr og kindur í mynstrin og segir mikilvægt að koma þeim vel fyrir í mynstrinu. Kristbjörg segir um það bil vikuverk að prjóna peysu, ef það taki styttri tíma sé það enginn almennilegur prjónaskapur. Einnig segir hún það skipta miklu máli að þvo hana vel til að mýktin í ullinni komi fram (Kristbjörg á Ystafelli, munnleg heimild, 12. febrúar 2001). Á þessu má sjá að það er greinilega mikil kúnst að ætla sér að prjóna góða lopapeysu. Enda prjónaskapur ákveðin list sem ekki öllum er tamin. Kristbjörg lofar peysuna mikið. Hún fer um hana fögrum orðum og ég skynjaði sterkar tilfinningar í orðum hennar í símanum. Tilfinningar sem minna á ást. Það var á vissan hátt eins og hún væri að tala um barnið sitt eða ástvin. Ég skildi það svo eftir að ég lagði símann á að þessar tilfinningar hafa sennilega verið til landsins hennar Íslands, sem henni þykir greinilega vænt um og er stolt af.

Kristbjörg á Ystafelli og eflaust fleiri prjónakonur og karlar efast ekki um fegurð íslensku lopapeysunnar. Fagurfræði er þó hugtak sem skilgreinist ekki í stuttu máli. Hér væri hægt að þrátta um fegurð eða ljótleika íslensku lopapeysunnar en vafalaust eru bæði til Íslendingar og útlendingar sem fussa og sveija yfir henni. Til dæmis stingur hún óskaplega mikið og síðan hvenær hafa hráir og úfnir sauðalitir verið töff og í tísku? Það sem ég er að segja er að fegurðin er afstæð. Orð Coote (1992) eiga vel við hér: „Það sem er er fagurfræðilega ánægjulegt og það sem er fallegt fer ekki alltaf saman“ (bls. 266). Það er eitthvað annað í augum okkar Íslendinga sem gerir peysuna og lopann að fögrum hlutum, heldur en aðeins munstrin og sniðið. Fagurfræði lopapeysunnar felst í táknrænni merkingu hennar fyrir Íslendinga, sögunni, umhverfi okkar og náttúru. Íslenska lopapeysan er orðin ákveðið tákn fyrir þjóðina, sögu okkar, sjálfstæði og íslenska náttúru sem blundar svo sterkt í okkur. Ísland er mikilfenglegt land og ríkt af andstæðum, og hér hafa náttúruöflin slegið vef sem á fáa sína líka. Fossarnir, snjórinn, eldurinn, hafið, mosinn og brunnið hraunið birtast í fínlegum litablöndum og munstrum peysunnar. Allt á uppsprettu sína í náttúrunni og sama máli gegnir með lopann. Kannski er engin tilviljun að hún hafi fyrst verið prjónuð rétt eftir stríð og eftir að Ísland er nýorðið lýðveldi.
Fegurð hennar felst í því hvernig við Íslendingar skynjum lopann og flíkina í heild, líkt og Howard Morphy (1992) fjallar um. Hann segir fagurfræðina höfða til skynjunar og tilfinninga þess sem að horfir á list, og þá í tilfelli lopapeysunnar, klæðist listinni. Það eigi sér stað ákveðin jákvæð geðshræring sem líkist gleðitilfinningum. Hann segir listina þó ekki alltaf vera túlkaða á þann hátt sem hún er skynjuð og upplifuð. Einnig segir hann það geta átt þátt í fegurð hlutar hvernig hann virkar (Morphy, 1992, bls.181). Virkni íslensku lopapeysunnar felst í notagildi hennar en hún hentar veðráttu okkar vel og gefur hlýju. Það á án efa á þátt í fagurfræðilegu áliti Íslendinga á henni. Hún veitir ómeðvitaðar gleðitilfinningar þegar við klæðumst henni sökum tengsla okkar við uppruna hennar sem að mörgu leyti er grundvöllur tilurðar okkar.

Ég held að flestir Íslendingar þekki íslensku lopapeysuna, og eigi jafnvel tvær til þrjár inni í skáp hjá sér. Þetta er ekki flík sem hinn dæmigerði Íslendingur klæðist á degi hverjum. Við notum lopapeysuna kannski helst þegar við förum í útilegu eða ferðalög út í náttúruna. Sjaldnast er lopapeysan þá skilin eftir heima. Hver ætli ástæðan sé fyrir því? Jú, hún er hlý og létt að ferðast með, en það býr eitthvað meira að baki. Maður klæddur í náttúru, úti í náttúrunni sem ól hann og mótaði. Þjóðerniskennd okkar Íslendinga blundar enn sterkt í okkur og íslensku lopapeysuna tel ég vera hluta af þeirri kennd. Sjálf á ég þrjár lopapeysur. Ein lopapeysan er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hún er teygð, hnökruð og toguð, og lítur satt að segja ekki svo vel út. Þrátt fyrir það heldur hún glæsileika sínum í mínum augum. Hún stendur sem ákveðið tákn um sjálfa mig. Þegar ég er í henni er ég í laumi að gefa ákveðna yfirlýsingu um að ég sé stoltur Íslendingur, ég dýrki náttúruna mína og beri virðingu fyrir sögu okkar. Ég efast ekki um að fleiri Íslendingum líði þannig þegar þeir klæðast íslenskri lopapeysu. Það blossar upp einhver vellíðan, ómeðvitaðar tilfinningar sem snerta rót okkar og uppruna. Lopapeysan er í raun ákveðin tenging við forfeður okkar. Við erum alltaf að vísa í uppruna okkar með einhverjum hætti. Ég held að lopapeysan beri ákveðinn kraft forfeðra okkar, víkinganna. Hún tengir okkur við forfeðurna, landið og náttúruna sem orkar svo sterkt á okkur.

Nú eru útlendingar aðalkaupendur íslensku lopapeysunnar og hljóta þeir einnig að finna eitthvað sérstakt við hana á einhvern hátt. Líklega er fegurð lopapeysunnar fyrir þá byggð á allt öðrum forsendum heldur en við gerum og táknræn merking allt önnur, enda sýn þeirra og tenging við land og þjóð með allt öðrum hætti. Líkt og Shelton (1992) segir: „Fagurfræðileg sýn er grunduð á kerfi gilda, skorðuð, staðsett og misnotuð af reglum sem eru að mestu leyti menningarlega og sögulega ákvörðuð“ (bls. 209). Eins segir Bourdieu að félagsstaða og menntun fólks hafi áhrif á heimssýn þess og að því noti það t.d. sömu hugtökin á ólíkan hátt. Þau hugtök eru svokallaðir félagslegir merkimiðar. (Shelton, 1992, bls. 210). Hugmyndir um fagurfræði eru þar eflaust engin undantekning.
Lopapeysan fyrir útlendinga held ég að sé fyrst og fremst minjagripur um ferð til fagurs lands. Ég held að fáir aðrir en Íslendingar gætu talað um íslensku lopapeysuna með eins mikilli ástríðu og ég heyrði Kristbjörgu á Ystafelli gera. Hvað þá ganga í henni teygðri og sjúskaðri. Layton (1992) talar um að fólk kaupi sér listmuni og minjagripi í framandi löndum (ætli það sé ekki hægt að segja Ísland framandi í augum margra) til að vera með ákveðna yfirlýsingu um sjálfan sig. Þegar það stillir framandi munum upp í stofu hjá sér sé það að auglýsa tengsl sín við framandi menningu og að kynna fagurfræðilegar hugmyndir sínar, þar sem það velur handgerða hluti fram yfir fjöldaframleidda (bls. 154). Lopapeysan er minjagripur og eflaust eru þeir útlendingar sem kaupa hana og ganga í henni í heimalandi sínu að gefa ákveðna yfirlýsingu um sjálfa sig. Í raun á svipaðan hátt og við gerum, bara með öðrum áherslum.

Líkt og sjá má af ofantöldu þá er íslenska lopapeysan engin venjuleg peysa. Hún leynir á sér þegar farið er út í vangaveltur um notagildi hennar, merkingu og fegurð. Hún er þjóðartákn og stolt Íslendinga jafnvel þótt hugmyndin um snið hennar sé komin frá Perú og munstrin frá Noregi. Það finnst mér harla merkilegt og ég hef grun um að það viti ekki margir. Ætli það sé ekki best að halda því svo. Það yrði líklega hneyksli í landinu ef því yrði útvarpað að íslenska þjóðartáknið, hin hefðbundna íslenska lopapeysa með tvíbönduðu munstri á hringlaga herðastykki, sé í raun ekki „ekta“ Íslendingur. Hvað sem því líður þá held ég að flestir myndu fyrirgefa henni, þar sem hún hefur öðlast sterka táknræna merkingu í hugum landans. Kristbjörg á Ystafelli lagði mikla áherslu á að Íslendingar ættu að halda uppi heiðri íslensku ullarinnar og sauðkindarinnar með lopapeysulistinni og vonaði að hún myndi halda áfram að vera eins sérstök og hún er í dag. Ég held að Kristbjörg þurfi ekki að örvænta. Íslenska lopapeysan mun eflaust halda velli um ókomna tíð, bæði sem nothæfur heimilisiðnaður og táknræn prjónalist.

Comments:
Lopapeysan okkar er jú merkileg en hún á Perú margt að þakka fyrir fegurð hennar.
Finnst mér, andstætt þér, mikilvægt að vita hvaðan munstrið kemur svo næstu kynslóðir viti hversu skemmtilega ólíkar listir hafi tvinnast saman á svo fallegan hátt.

vertu þakklát fyrir það sem við höfum fengið "lánað".
 
Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker