<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, janúar 03, 2005

Ræðumaðurinn ég 

Mamma varð fimmtug um daginn. Mér finnst það major áfangi. Samdi smá ræðu af tilefninu sem ég birti hér (sérstaklega þar sem ég frétti að margar af vinkonum mömmu út um allan heim eru að lesa þessi skrif mín...!). Here goes.

"Jæja, þá er hún mamma orðin fimmtug! Jesús minn almáttugur og jedúddamía!! Hvað gerðist? Líður tíminn svona hratt að mamma manns er allt í einu upp úr þurru orðin fimmtug? Hálf hundrað ára. Fimmtíu er nú næstum því hundrað... svona næstum því. Ykkur vinum hennar finnst fimmtugsaldurinn án efa ekki vera neinn aldur. Ég hins vegar sjálf sé þrítugsaldurinn nálgast með hryllingi. Mamma var einu sinni þrítug pæja. Þá var ég 9 ára. Og nú er hún orðin fimmtug – og ég 28. Jahá.

Auðvitað er ég bara að grínast þegar ég segi að fimmtíu sé sama og hundrað. En ég viðurkenni að ég hef aldrei verið sleip í stærðfræði. Fimmtíu er bara smotterí. Alla vega þegar kemur að mömmu. Fyrir mér er mamma tímalaus og aldurslaus með öllu. Hún er sama pæjan og þegar hún var þrítug, og ég get fullyrt það að það sést ekki mikill munur á henni þá og nú. Við erum ennþá iðulega spurðar að því hvort við séum systur og þá brosir mamma breitt! Og svo brosir hún ennþá breiðara þegar ég er spurð hvort ég sé ekki eldri systirin. Hmmm...“Vá hvað mamma þín er ungleg”, “Þetta getur ekki verið mamma þín” hef ég hundrað sinnum heyrt frá vinum mínum. Ó, jú. Þetta er hún mamma. Fimmtug í fínu formi og með færri hrukkur en ég sjálf. Mamma sagði mér eitt sinn þegar ég var unglingur gjörsamlega þakin í unglingabólum á enninu að hún vissi bara ekkert hvað gera skyldi því hún hefði aldrei á ævinni fengið bólu – og hvað þá kreist bólur! Já, húðin í andlitinu á henni er í alvöru mýkri og sléttari heldur en rassinn á dóttur minni.

Þrátt fyrir erfiðan og þreytandi lifrasjúkdóm sem uppgötvaðist fyrir nokkru hjá mömmu er mamma svona hörkukelling. Hún hefur alltaf verið hörkukelling og sá titill fer ekki svo auðveldlega af henni þrátt fyrir veikleikann og lyfjainntöku og slappleika.

Mamma vill helst hafa þúsund milljón hluti á planinu í einu því þannig verður henni mest úr verki. Og hún er ansi góð í að gera milljón hluti í einu á sama tíma – það er lítið mál fyrir hana. Jú, það er kannski af því hversu hröð og ör týpa hún er – sem er kostur – ég þekki þetta sjálf, fékk þetta beint í æði frá henni mömmu og er þakklát fyrir. Skipulagshæfileikar mömmu eru magnaðir. Ef þið þurfið að skipuleggja brúðkaup eða heimsreisu þá myndi ég hringja í mömmu. Hún myndi taka slíkt verkefni á hælinn. Ég sá bara svart á hvítu fyrir þessa veislu hvaðan ég hef fengið skipulagshæfileika mína sem vinkonur mínar gera iðulega grín að – þegar ég sá minnismiðann hennar mömmu – “Taka úr þvottavélinni” – “Borða” – “fara í bað” - neibb, þetta er ekki minnisleysi – þetta er skipulagskonan Gunna að massa hlutina eins og á að gera það! Nei, ok, þetta var nú bara djók, en í alvöru þá spyr mamma mig í júní hvernig við ætlum að hafa jólin og á mánudegi hvað við skyldum hafa í matinn um helgina!

Mamma er líka ævintýrakelling. Afsakið að ég noti orðið kelling, en mér finnst það bara kúl í svona fimmtugsafmæli. Hún hefur ferðast út um allar trissur og eyðir hverri krónu afgangs til þess að ferðast og upplifa eitthvað nýtt. Ganga á fjöll og skoða ný kennileiti. Ég held hreinlega að hún myndi ekki þrífast öðruvísi. Kannski þess vegna hefur hún valið sér að búa miðsvæðis í Evrópu þar sem stutt er í ævintýrarómatíkina. Í Þýskalandi hefur hún dafnað vel eins og sjá má undanfarin ár hjá FORD og ferðast um gjörvalla Evrópu við hvert tækifæri. "Já, ég skrapp til Parísar um helgina", - "Við skruppum til Lux" – "Oh, Strassbourg er æðisleg, við fórum nokkrar og fengum okkur kvöldmat þar"... Já, það er ekki laust við að maður fyllist smávegis öfund við að heyra þetta. Ég hef reynt að segja henni að Ísland sé best í heimi og að Laugavegurinn sé alveg málið og dýrtíðin sé liðin tíð, en allt fyrir ekki. Náttúran togar þó í hana og fjölskyldan eitthvað líka, en það hefur ekki virkað ennþá. Ekki enn. Ég spurði mömmu eitt sinn hvort hún ætlaði sér nú ekki alla vega að flytja heim til Íslands þegar hún verður gömul, ellilífeyrisþegi eða eitthvað og svarið var “nei... veistu ég held bara ekki.”

Mamma, nú ertu officially orðin gömul, það er stutt í ellilífeyrisþegann og ég veit að þú ert að endurskoða þessi mál. Ég veit að allir hér inni myndu án efa vilja fá og hafa gaman af því að fá svona litríka vinkonu eins og þig heim. Ég get líka sagt þetta á þýsku ef þú vilt – KOMM NACH HAUSE MUTTER!

Að öllu gríni slepptu þá langar mig að óska mömmu innilega til hamingju með árin fimmtíu. Ég óska þess að þú eigir önnur fimmtíu ár eftir í þessu lífi – samt vonandi á Íslandi – því þrátt fyrir þennan leiðinlega lifrasjúkdóm máttu vera viss um að þú lifir alla vega 43 ár í viðbót því þú hefur oftar en ekki sagt mér frá spám kvenna sem segja þig verða alla vega 93 ára. Svo við höfum ekki áhyggjur af þessum sjúkdómi. Ég skal halda aðra ræðu á afmælisdaginn þinn þegar þú verður 93, en segi þetta gott í bili.

Mamma lengi lifi eins flott og hún er – húrra, húrra, húrra, húrra!"

Erla.Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker