<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Líkams- og sálarrækt 

Það var þó nokkuð um líkamsrækt í dag hjá minni. Eftir að hafa fengið dágóða óbeit á líkama mínum ákvað ég að taka málið sæmilega föstum tökum. Samt bara sæmilega sko. Ég og Vera fórum í eins og hálfstíma göngutúr í góða veðrinu í dag. Það var 10 stiga frost en Vera undi sér þvílíkt vel í kerrunni sinni og var sjóðandi heitt. Hún reyndar sofnaði eftir 20 mínútna rölt og missti því af útsýninu af Hamrinum í Hafnarfirði sem sjá má á mynd hér fyrir neðan. Go Hafnarfjörður! Eftir labbið var ég dofin á lærunum af kulda, enda í gallabuxum einum fata að neðan því ég hélt að það væri ekki svona kalt... en túrinn var þess virði.

Eftir labbið skellti mín sér í Pílates. Já, eftir að samstarfs- og vinkona mín sagði mér frá sixpack sem hún væri komin með eftir Pílates var ekki um annað að ræða en að tæma budduna og skrá sig á námskeið. Ég hringdi í kennarann til að athuga með námskeið og þá var akkúrat eitt laust pláss og fyrsti tíminn í kvöld! Þetta voru pottþétt örlögin að taka í taumana = Mér er ætlað að fá sixpack! Jei. Vinkonan tók loforð af mér um að vera ÞOLINMÓÐ í fyrsta tímanum og ekki rjúka út. Mér tókst það. Þrátt fyrir að þetta hafi verið svitaminnsti og rólegasti líkamsræktartími sem ég hef farið í á ævinni tókst mér að haga mér og vera þolinmóð. Einbeitti mér að æfingunum í rólegheitunum og því að gera þær rétt. Þarna var bara verið að kenna okkur æfingarnar og sýna okkur tæknina. Ég var eina unga stelpan innan um kellingar fimmtugt og yfir. Alla vega þrítugt og yfir. En... ég ætla samt! Svo fer maður á framhaldsnámskeið og svona og það verður meira stuð. Þetta er bara byrjunin. Hlakka til framhaldsins.

Þetta var góður dagur, göngutúr í góðu veðri og andlegt átak í Pílatesi. Líkams- og sálarrækt. Dagurinn endaði reyndar með súkkulaði Royal búðingi með rjóma sem ég gúffaði í mig áðan - en við segjum engum frá því...(er líka mjög gott fyrir sálina!) ;)


Á Hamrinum Posted by Hello

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker