<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Flóð 

Rétt eftir áramót kom ausandi hellidemburigning hér á höfuðborgarsvæðinu. Rigningarvatn flæddi inn í kjallarann á húsinu mínu - bæði í geymsluna og í íbúðina hjá mínum elskulega leigjanda. Það var 2-3 cm lag af vatni yfir öllu! Ohhhhhhh..... slökkviliðið kom og saug upp vatnið og löggan kom og tók skýrslu. Parketið í kjallaraíbúinni er ónýtt og flísarnar á baðinu munu líklegast losna fyrr en síðar út af bleytunni. Og þá voru góð ráð RÁNDÝR! Jólavísareikningurinn var alveg nógu hár að maður þurfi að eyða aur í svona óhapp. Stokkhólmsferð á næsta leyti og ég grét yfir því að geta ekki misst mig í H&M þar úti. Frekar að kaupa nýtt parket. Og flísar. Spennandi eða þannig. Snökt.

Við höfðum samband við Sjóvá þar sem við erum með allar tryggingar í heimi sem hægt er að hafa, en nei, þeir sögðust ekki tryggja tjón sem utanaðkomandi vatn veldur heldur bara það vatn sem kemur úr sprungnum pípum úr húsinu sjálfu! Hvers lags er þetta? Maður heldur að maður sé tryggður í bak og fyrir og borgar þó nokkuð marga peninga fyrir á ári hverju, lendir aldrei í tjóni og svo þegar það gerist á maður ekkert inni. Demit. Eins og maðurinn sem var eins sjúkratryggður og hægt er og fékk heilaæxli vinstra megin í heilann. Tryggingarnar sögðust ekki skulda honum neitt þar sem smáa letrið í dílnum sagði að tryggingin tæki aðeins til heilaæxlis hægra megin. Jahá. NEi, ok, þetta er bullsaga, en það liggur við!

Við höfðum þá samband við Hafnarfjarðarbæ og sögðum hann ábyrgan fyrir flóðinu þar sem það hefur láðst að setja niðurfall fyrir framan geymsluna okkar í hellulögn sem hlaðin var rétt áður en við fluttum í kofann. En nei, lögfræðingurinn þeirra firrti bæinn allri ábyrgð. Svo ég skrifaði bæjarstjóranum bréf og heimtaði að þeir sæju sóma sinn í að taka þátt í kostanaðinum við endurbætur. Bæjarstjórinn var hinn almennilegasti og viðurkenndi að niðurfall vantaði. Næs gæ. Og málið er í athugun.

Ég var þvílíkt reið og leið yfir þessu þegar Sjóvá sló á þráðinn til mín og tjáði mér með bros á vör (ég heyrði það!) að þeir væru ábyrgir eftir allt saman. Við værum tryggð fyrir þessu tjóni. Þann 3. janúar sl. þegar flóðið kom inn til okkar var svokölluð "asahláka" og í slíku veðri eru tryggingafélögin ábyrg ef það flæðir inn til fólks! Jahérna! Asahláka, asahláka, asahláka... I love you! Flott orð. Löggan staðfesti að um asahláku hafu verið að ræða þennan dag og nú koma bara kallar heim til mín með nýtt parket og púsla því saman á no time.
Og það birti aftur yfir Stokkhólmsferðinni minni... ;)
Go Sjóvá!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker