<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, desember 16, 2004

Marisnobbo 

Ég fór um daginn í búð hér í bæ til að kaupa mér efni í diskamottur. Já, sauma skyldi nýjar diskamottur fyrir þessi jól. Ég er ekki vön að leggja leið mína í þessa búið þar sem hún er svo dýr en þykir svaka gaman að koma þangað vegna þess hversu flott hún er. Já, við erum að tala um Epal.

Ég valdi mér forláta rautt blómaefni sem mér þótti bæði jólalegt og sumarlegt í senn. Og bara sjúklega flott yfir höfuð. Ég bað um 3 metra takk. Ekkert mál. Svo spurði ég konuna í rælni hvort það væri nú ekki betra að þvo efnið áður en ég myndi sauma úr því upp á að það myndi hlaupa eða skekkjast eitthvað. Epalkonan horfði á mig undrunarsnobbaugum og sagði: "Hvað meinarðu, uh, þetta er MARIMEKKO!!!" Ég roðnaði lítið eitt en hélt mínu striki og sagði bara "ó... já, einmitt, Marimekko já". Ég vissi það nú svo sem, en vissi nú samt ekki að þetta væri svona rosalega merkilegt efni að það myndi ekki hlaupa eða togast til í þvotti. Vá, þvílík hönnun!
Nú, þrátt fyrir vitneskjuna um þetta undraverða efni skellti ég efninu í þvottavélina áður en ég saumaði úr því, því það var það dýrt að ég ætlaði sko ekki að taka neinn sjéns.

Svo mældi ég það svakalega samviskusamlega og reif í búta. Og þá byrjaði ballið. Þetta var allt skakkt og skælt! Demit. Marimekko smekko... þetta er bara venjulegt bómullarefni sem skekkist eins og annað! Hefði átt að vita það.
Svo við tók að mæla alla bútana upp á nýtt og klippa. Og mér hreinlega tókst það ekki! Ég var byrjuð að bryðja á mér endajaxlana af pirringi þegar Viggi kom heim mér til bjargar. Ég hugsaði með mér að þrátt fyrir ágætis reynslu í fatasaumi og öðru föndri þá á mér ekki eftir að takast þetta. Ég er ekki nákvæmnismanneksja, feis it. Svo ég spurði Vigga hvernig hann fari nú eiginlega að því að byggja heilu húsin með þráðbeina veggi??! Hann svaraði: "Nú, með því að mæla þá". Arg. Ég var svoleiðis búin að mæla þetta í spað en alltaf var þetta skakkt og bútarnir bara minnkuðu og minnkuðu... sá diskamotturnar hægt og rólega verða að glasabökkum ef ég héldi áfram að díla við þær. Svo smiðurinn tók við og kláraði. Á sinn yfirvegaða hátt. Og klippti fimlega.

Ég saumaði svo úr þessu í gærkvöldi, heil 9 stykki, fóðruð og allt. Og diskamotturnar eru hreint og beint æði!

Komst að því að það er ekki mikill munur á merkjum þegar kemur að gæðum. Mér hefur gengið betur að sauma úr efni úr Rúmfatalagernum en þessu Marisnobbo.
En þetta er samt flottasta efnið!
Svo ég fyrirgef þessu finnska fljóði.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker