<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, desember 27, 2004

Jólaflóð 

Við lifum í allsnægtum hér á Íslandi. Í þvílíkum munaði að menn muna ekki annað eins. Fólk splæsir í amerískum trukkajeppum með 6 dekkjum og einbýlum með sundlaug og tilheyrandi eins auðveldlega og að kaupa sér mjólk og snúð. Setjum þetta bara á Visa. Eða nei,... Júró í þetta sinn.

Og ég líka. Ég er hluti af þessum pakka. Á hús og bíl sem ég á ekkert í. Eins og hinir af minni kynslóð. Við erum skuldakynslóðin. Amma skilur þetta ekki þegar ég bið hana um að ábyrgjast lánin og hefur þvílíkar áhyggjur af því að við förum brátt á hausinn. Hún skuldar auðvitað ekki neitt. Á 400 fm húsið sitt og bílinn skuldlaust. Ég hef samt ekki minnstu áhyggjur af lífinu. Svona er þetta bara. Hefur alltaf verið. Það er einhvern veginn ekki eins og maður eigi seðilinn undir kodda fyrir því sem þarf að kaupa. Jebb, við nefninlega ÞURFUM þetta allt alveg lífsnauðsynlega. Án gríns. Á Íslandi alla vega.

Maður missti sig að sjálfsögðu í gjöfunum þessi jólin sem önnur og hafði gaman af. Annars er þetta ekkert skemmtilegt. Viðurkennum það bara að það er lítið fútt í að gefa kerti og spil í jólagjöf í dag, jafnvel þótt það sé krúttlegur hugur á bakvið það. Það yrðu góð vonbrigði á þeim bænum. Eins og maðurinn sem ég þekki sem gaf konunni sinni bumbubanann... góð og kærleiksrík skilaboð það í anda jólanna! Hann varð ekkert sérlega vinsæll þau jólin. Eða annar góður karl sem keypti brauðrist handa sinni spúsu.... kommon... er ekki að virka! Jú, það vantaði brauðrist á heimilið en konan hefði pottþétt frekar vilja borða frosið og gamalt brauð næsta árið í stað þess að fá þessa ristavél til að rista það í frá manninum sínum. Var ekki að gera sig. Jólin eru fyrir löngu orðin að ég myndi segja frekar ópersónulegri hópgjafasvallhátíð. Og mér finnst það hrikalega gaman, þótt ég reyni eins og ég get að vera persónuleg í gjöfunum.

Vera fékk massann allan af gjöfum og kunnum við þeim sem gáfu henni jólagjöf bestu þakkir fyrir. Veru mun ekki skorta föt eða dót næsta árið og er það vel. Mamman hefur hins vegar aldrei fengið eins fáar gjafir áður og ég viðurkenni að mér fannst það soldið svona hehemm. Nei, segi bara svona. Fannst í raun mun skemmtilegra að opna gjafirnar hennar Veru heldur en mínar, en hún var svo spennt yfir þessu öllu að hún bara sofnaði á meðan þessi gjafaopinberun fór fram.

Þegar ég sit hér og hugsa um hvað við höfum það fínt, þrátt fyrir einstaka peningaáhyggju um mánaðarmót og dimmt og kalt skítaveður verður mér hugsað til heimildamyndaþáttar sem ég sá rétt fyrir jólin í sjónvarpinu. Í honum var fátæku íslensku fólki fylgt eftir. Þetta var alvöru venjulegt fólk sem þarf að hugsa um hvern einasta hundraðkall sem það eyðir. Úff. Maður gleymir í allsnægarpartýinu að það er nokkuð um fátækt hér á landi. Ég hélt í fávisku minni að fátækt fólk á Íslandi væru aðallega rónar, klikkhausar og letingjar sem nenntu ekki að vinna, en ó nei. Þarna var rætt við klárar konur og menn sem einhvern veginn hafa lent svona í því að eiga varla í sig og á. Ég fékk nú bara tárin í augun. Ég sat þarna að pakka inn jólagjöfum fyrir þúsundir króna á meðan fátæka konan í sjónvarpinu þurfti að fara til mæðrastyrksnefndar að betla sér jólamat. Alveg hrikalegt fyrir sjálfsvirðinguna og móralinn. Þetta er svo fjarlægt manni um leið og þetta er kannski konan í næsta húsi. Hún leit út fyrir að vera eins og þú og ég, nema hafði ekki getað klárað skóla á sínum tíma, átti 3 börn og skildi við manninn sinn. Það þarf ekki meira til.

Eins verður mér hugsað til nýyfirstaðinna hamfara úti í heimi. Þetta er líka svo fjarlægt manni. Maður er ennþá bara með jólabrosið frosið fast á feisinu og er svo tilfinningalaus þegar maður les slíkar fréttir utan út heimi. Endalausar stríðsfréttir hafa líka einhvern veginn gert mann dofinn fyrir svona fréttum. Maður skilur varla hvað það þýðir þegar 30 þúsund manns farast í einu. Bara kvissbang. Því miður. Nema í þetta sinn fékk ég í magann. Því ég hef verði á þessum slóðum og gat lítillega tengt mig fréttinni. Og fékk kökk í hálsinn. Þetta er án efa hrikalegra en nokkur maður hér á Íslandi getur ímyndað sér. Við í lifanda lífi hér í dag höfum aldrei upplifað slíkan harmleik að við getum samsamað okkur svona atburðum. Kannski einhvern tímann skellur flóðbylgja á okkur eftir jarðskjálfta á Reykjanesskaga eins og Nostradamus spáði fyrir og þá munum við kannski fá að vita það. En vonandi ekki.

Áður en ég verð svartsýn og bölsýn og niðurdregin og leiðinleg ætla ég að hætta. Jólaflóðið er yfirstaðið, bæði hér á Íslandi og vonandi í Asíu líka. Ég sendi þeim eins góða strauma og ég get en verð að halda áfram mínu striki sem ríkur íslendingur, bæði í huga og vasa, og fer til vina minna að spila.
Það toppar jólin mín þótt hlutirnir spilist því miður öðruvísi hjá mörgum öðrum.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker