<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, desember 14, 2004

Jólabaksturinn 

Jólabaksturinn minn er ekki hafinn.

Amma mín hringdi í mig í gær og spurði mig hvort ég væri nú ekki búin að baka fyrir jólin. Ég neitaði því. "Nú, af hverju ekki" spurði hún undrandi á þessu framtaksleysi ungu húsmóðurinnar. "Ég bara hef ekki haft neinn tíma til þess. Mér finnst ég bara ekki hafa tíma til þess lags hluta núna..." svaraði unga húsmóðirin þreytulega. "En ertu búin að vera að þrífa húsið þá eða...?" spurði amma. "Neeee... ekki heldur sko. Var að spá í að fá konu í það fyrir jólin". "Ha, nei, það gerirðu ekki kona góð!!!"
Og þá kom ræða frá ömmu. Hún sagði þetta bara ekki hægt. Að ég hlyti að vera svo skipulagslaus (wow, alveg róleg - hún ætti bara að vita skipulagsfríkina í mér!!) og kæmi því engu í verk (smákökubakstrinum). Ég neitaði því, sagðist vera að þvo þvott og ganga frá dóti allan daginn og leika við Veru. Amma gerði lítið úr því að spurði mig að því hvernig ég héldi að það hafi verið í gamle dage þegar hún var með 4 börn og þar af eitt "óþolandi" grenjandi allan sólarhringinn. Það var stutt á milli barna, pabbi þeirra alltaf að vinna (afi) og svo framvegis. Ég stóð á gati. Og þá þurfti sko að sjóða allar bleyjur í potti á eldavélinni, drösla svo pottinum í baðið þar sem var skolað úr þeim. Svo var ALLT straujað (og ekki með gufustraujárni nota bene). Svo þurfti að prjóna buxur utan um bleyjurnar og prjóna ný föt á börnin því það voru engin barnaföt til á Íslandi til kaups... og ég veit ekki hvað og hvað. JESÚS MINN AMMA! HÆTTU AÐ SEGJA MÉR ÞETTA!!

Mér leið eins og aula. Aula húsmóður. Samt veit ég að ég er að gera margt gagnlegt. T.d. að föndra og þæfa ull og sauma og fara í ræktina og hitta aðrar mömmur.... já, maður er að hugsa um sjálfa sig! Bakstur hefur ekki verið hluti af því.

Amma fussaði og sveijaði en kom svo síðar um daginn með fullan poka af smákökum til mín með bros á vör.

Ég lét hana nú ekki slá mig út af laginu, en smákökubakstur er nú samt kominn á skipulag vikunnar og verður lagt í hann um helgina. Og það verða sko hvorki færri né fleiri en 3 sortir teknar í bakaríið.
Og auðvitað fer ég svo með fullan bauk af kökum til ömmu :)
Skák og mát.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker