<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, nóvember 08, 2004

Prjónavélin ég... 

...eða þannig. Ég er ekki sérlega góð í að prjóna. Skil uppskriftirnar eins illa og kínversku og hef einhvern veginn ekki komist upp á lagið með þetta í gegnum árin. Hef þó alltaf tekið í prjónana af og til og get stolt sýnt ykkur 2 ullarpeysur þess til sönnunar. Reyndar hjálpaði amma mér heilan helling þar því eins og ég sagði er ég léleg prjónakona.

Mamma, amma og Solla móðursystir hafa séð um þá hlið handverkanna. Þær eru ofurprjónakonur. Prjóna eins og þeim sé borgað fyrir það. Geta ekki horft á sjónvarpið án þess að hafa prjónana í höndunum. Amma og mamma tala um að þær "vanti" eitthvað að prjóna og biðja um að fá að prjóna eitthvað á mig eða á einhvern krakka sem ég þekki. Geta bara ekki ekki prjónað. Þegar ég var yngri var ég alltaf í heimaprjónuðum peysum. Og sokkum. Og vettlingum og húfum og treflum. Svo var ég nú líka í heimasaumuðum Don Cano galla en það er annað mál... Mér finnst reyndar mjög krúttlegt þegar krakkar eru í heimaprjónuðum peysum og svoleiðis. Það er eitthvað spes við það. Og ég hélt auðvitað þegar ég var yngri (og held enn...) að ég yrði að sjálfsögðu eins og langstærstur meirihluti kvennanna í familíunni, s.s. góð prjónakona. Þetta væri bara í genunum. En eitthvað hafa þau gen farið eitthvað annað... ég er nefninlega bæði léleg og löt prjónakona.

Ein góð frænka mín sem er í barneignarfríi eins og ég er nú illilega dottin í prjónabakteríuna. Jesús minn. Bara allt í einu, eins og stungin af prjónamýflugu í hausinn. Hún er í prjónaklúbbi, er áskrifandi að prjónauppskriftum, fer á sérstök prjónakaffihús og getur ekki farið í bæinn án þess að kaupa sér eitthvað garn sem var svo ómótstæðilega fallegt og spes. Öðruvísi en allt annað garn auðvitað. Og svo framleiðir hún sjöl og handskjól og sokka og ég veit ekki hvað eins og brjáluð prjónavél. Já, þessar kellur eru hreinlega prjónavélar. Og ég lít upp til þeirra. Af hverju gerist þetta ekki með mig?

Ég er nú að prjóna handskjól með perlum. Voða fín. Frænka mín smitaði mig og ég ákvað að byrja. En vá hvað það gengur hægt. Svo þarf ég alltaf að rekja slatta upp því ég gleymi alltaf perlumustrinu. Get greinilega bara hugsað eitt í einu þessa dagana. Prjónið er þvílík þolinmæðisþraut. Gott fyrir mig. Það er eins með að prjóna og að lesa þykka bók, mig bara hryllir við að byrja á verkefninu af því það tekur svo langan tíma! Ég er meira svona STRAX manneskja. Sauma frekar og les tímarit því það tekur styttri tíma.

Ég hef sett mér markmið (að ráðleggingu prjónafrænku) að prjóna a.m.k. 12 garða í handskjólunum á dag. Þá klárast þetta einhvern tímann. Og það gerði ég í gær. Prjónaði reyndar ábyggilega 25 af því ég þurfti að rekja svo mikið upp, en garðarnir enduðu í 12 stykkjum takk fyrir. Og þegar handskjólin mín verða tilbúin verða þau voða fín og þá verður kátt í kofanum!

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker