<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, nóvember 20, 2004

Gamalt og gott 

Ég hef alltaf verið hrifin af gömlum hlutum. Hef verslað mér dýrindis antík og gamalt drasl í Kolaportinu frá því ég man eftir mér. Og hirði hluti sem á að henda frá öðrum. Ég er samt enginn drasl safnari, heldur fíla bara mjög oft þetta gamla góða fram yfir nýtt. Á heimilinu er þó blandað saman gömlu og nýju í góðri stílleysu sem samt er minn stíll.

Ég fór að spá í gamla hluti um daginn þegar hún mamma ætlaði að láta laga gamlan leikfangahest frá því hún var lítil. Þetta er s.s. um 50 ára gamall leikfangahestur á hjólum sem öll börn elska að leika sér með. Fara á hestbak og gobbedígobba út um allt. Hesturinn lítur eftir öll árin og leikinn ekki ýkja vel út. Bæði augun eru dottin af, hann er bara með eitt eyra, faxið er horfið og heftiplástur prýðir bakið á honum til að hálmurinn haldist inni. Hann er sem sagt vel tjónaður greyið. Mömmu fannst ómögulegt að hafa hestinn svona útlítandi nú þegar Vera uppáhaldið hennar fer bráðum að leika sér við hann og ákvað því að fara með hann til bólstrara og gefa hoho nýjan feld, fax, augu og eyru.

Síðan ég var lítil hefur þessi hestur litið svona út, verulega tjónaður. En ég elskaði að leika mér við hann svona útlítandi. Svona man ég eftir honum, svona er hann og svona vill ég hafa hann. Ég velti því fyrir mér hvernig það væri ef við myndum alltaf laga allt og gera gamalt að nýju. Þá væri aldrei neitt gamalt. Aldrei neitt gamalt og gott. Allt nýuppgert og nýtt. Engin ummerki um neitt. Í sárum hestsins felst nefinlega svo margt. Góðir tímar, æska, leikur, gleði og saga prýða hestinn og allt þetta mun hverfa við bólstrun.

Mamma var í fyrstu ekki sammála mér. Hún myndi ekki bjóða Veru upp á að leika sér að "ónýtum" hestinum. Ég þrætti á móti og sagði Veru frekar vilja hafa hestinn svona. Hún hafi sagt mér það um daginn. Ef Vera vildi leika sér að nýjum hesti þá myndi ég kaupa einn fjöldaframleiddan og litríkann eins og allir hinir eiga í IKEA. En ég fór samt með hestinn til bólstarans að hennar bón.

Eitt hvað hefur þó ræðan mín um gildi gamals dóts og drasls virkað á múttu því hún setti bólstrunina á hold. Hesturinn fær líklega bara ný augu en fær svo að vera hann sjálfur áfram. Engan IKEA fíling á hann takk. Sem betur fer áttaði mamma sig.

Eins er með hring sem föðursystir mín erfði eftir afa (pabba sinn). Þetta er frímúrarahringurinn hans afa sem hann bara á fingri alla ævi. Og hann lifði þau 87. Hringurinn ber sögu afa vel að mínu mati. Hann er vel markeraður af erfiði og vinnu. Frímúrarastafirnir sjást varla ennþá, eru nánast eyddir upp. Þessi hringur minnir mig alltaf á afa. Og hans ævi og störf. Frænkan hugleiddi að bræða hringinn í hring handa sér. Vissi ekki hvað hún ætti að gera við stóran frímúrarahring föður síns og vildi frekar bræða hann í eitthvað sem hún myndi alltaf vera með. Alltaf vera með pabba sinn hjá sér.

Ég þrætti líka á móti því. Sagði henni mína skoðun sem er að gera nýjan hring úr gömlu frímúraragulli gefi henni ekki neitt. Saga afa og merki gamalla afatíma hverfa með nýju handbragði að mínu mati þótt gullið sé það sama. Og hún hætti við. Í bili alla vega.

Auðvitað þurfa ekki allir að fíla þetta gamla eins og ég. En við megum samt ekki útmá allt gamalt og breyta í nýtt við fyrsta tækifæri. Þá hverfur tíminn og gömul ævi.

Nú er svo verið að tala um að breyta þjóðsöng Íslendinga. Fyrir mér væri það hreinlega eins og að breyta trúnni! Að af því það er erfitt að syngja hann þá þurfum við að henda honum út og fá okkur nýjan. Það er eins og að segja að af því fólk stelur oft þá eigi boðorðið þú skalt ekki stela ekki við ennþá. Bara henda því út. Og þar fram eftir götunum. Það var ástæða fyrir því af hverju þessi þjóðsöngur var valinn á sínum tíma. Það tengist sjálfstæði Íslands og Matthías Jochumsson var virt ljóðskáld. Og það hlýtur að vera gild ástæða enn í dag. Við getum ekki bara alltaf breytt öllu út af nýjum tímum. Að endalaust aðlaga gamalt að nýju virkar bara ekki. Þá væri alltaf allt nýtt.
Þá væri engin saga.
Og þá væri ekkert gaman.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker