<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, október 12, 2004

Íslenski lúxusinn 

Allir Íslendingar sem hafa búið í einhvern tíma í útlöndum vita að Ísland er best í heimi. Og jafnvel líka einhverjir sveitadurgar sem hafa aldrei stigið út fyrir landssteinana. Ísland er allt það besta og frábærasta og hvernig sem á það er litið. Ok, við eigum ekki olíu, en við eigum vatn og orku. Ok, við eigum ekki mikið af sól en við eigum mikið af frábærum úða, hressandi slyddu, skemmtilegum hellidembum, láréttri rigningu, púðursnjó, rokíallaráttir og hávaðaroki líka. Og ég fíla það. Ég nefninlega veit að Ísland er bezt í heimi. Ég uppgötvaði það þegar ég bjó einu sinni fjarri þessum dásemdum í dágóðan tíma.

En ég var hins vegar búin að gleyma þessu þar til í gær. Í skugga kennaraverkfalls, pólitískra hæstaréttarskandala, dýrtíð og dimmu var ég bara hreinlega búin að gleyma því.

Þar til að íslensk frænka mín fögur og fríð sem býr Svíþjóð kom hingað heim í heimsókn og rifjaði það upp fyrir mér. Við skelltum okkur í syndsamlega gott sund fyrir 300 kall (og settum meira að segja krílin í pössun á staðnum á meðan = Laugar, geri aðrir betur :)), fengum okkur vöfflur með rifs og rjóma, súkkulaðisnúð, eina með öllu og önduðum að okkur ferskasta haustloftinu í heimi. Á meðan það kurraði í frænkunni af gleði þegar hún svamlaði í sundinu í heitu vatninu undir berum himni og teygði úr sér og slakaði á eftir brjóstagjöf og barnastúss sl. 3 mánuði, rifjaðist það upp fyrir mér á ný við hversu mikinn lúxus við búum. Oh, hvað það er gott að búa hér! Best, bestara, bestast! Frænkan sem er líka í fæðingarorlofi öfundaði mig fyrir að geta verið að spóka mig í sundi og líkamsrækt hele dagen í orlofinu fyrir skid og ingen ting. Úti í Svíþjóð hefur hún bara ískalda laug með kraftlausum sturtum og engum potti. Og auðvitað enga barnapössun á staðnum svo hún getur ekki einu sinni farið þótt hún vildi.

Ég notaði þetta auðvitað á hana sem pressu á að flytja aftur heim því hún fann þessa frábæru tilfinningu auðvitað mun sterkar en ég eftir alla þessa fjarveru frá íslensku fínheitunum. Fín staða doktors í umhverfisvistfræðum á sænskri rannsóknarstofu er bara aukaatriði miðað við íslenska lúxusinn. Og ég er ekki frá því að þetta sé eitthvað að virka hjá mér og Íslandi. Ég ætla alla vega að halda áfram að fara með hana í sund og gufu og gera henni glaða íslenska daga á meðan hún er hér næstu 3 vikurnar.

Ísland já takk! (og heyrðirðu það Halldóra elsku frænka mín!)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker