<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, október 06, 2004

Mömmumórall 

Ég er með hjartaverk. Algjöran mömmu-hjartaverk. Sem ég vissi ekki að væri til fyrr en Vera fæddist. Gerði áður hálfgert grín að paranoid mömmum sem mér fannst taka börnin sín aðeins of alvarlega. Mömmur sem spurðu pössupíuna, jah eða pabbann þegar hann var með krakkann, í þaula um hvernig hafi gengið með barnið: "Kúkaði hún?", "Kúkaði hún mikið eða lítið?", "Hvernig var kúkurinn á litinn?", "Sofnaði hún eitthvað?", "Klukkan hvað sofnaði hún?", "Klukkan hvað vaknaði hún svo?", "Hva, varstu ekki að taka tímann?", "Hvernig svæfðirðu hana?", "sofnaði hún strax eða...?", "Hvernig leið henni?", "Hvað meina ég...? Bara hvernig fannst þér henni líða?", "Var hún glöð, ergileg, pirruð, hló hún...?"....

Ég er orðin þessi mömmutýpa. Mér er ekki sama hvernig barninu mínu líður og mér finnst ég þurfa að hafa algjört yfirlit yfir það sem gerist. Treysti pabbanum samt fullkomlega fyrir sínu hlutverki þegar ég er ekki til staðar. Bara verð samt að spyrja. Eins og asni.

Ég fór á kóræfingu í kvöld. Kóræfingin er í rúma tvo tíma frá kl. 20-22. Og fyrir dálitlum tíma tók Vera upp á því að fara að sofa milli kl. 20:30 og 21:30. Auðvitað akkúrat þegar mamman er að gaula fjarri góðu gamni. Þá vill Vera fá sér mikið að drekka fyrir nóttina. Ná upp forða fyrir nóttina. Og þá er ekkert brjóst til að sofna á. Æi...... og í kvöld varð hún frekar mikið svekkt með það. Lét pabbann sko heyra í sér. Hún var ekki að fíla þetta fyrirkomulag. Hvað er mamma að gera úti í bæ þegar ég þarf á henni að halda? Grátur og gnístran tanna.
Maaaaaaaaaaaaammmmmmmmaaaaaaa!!!
Brrrjjjjjjóóóóóst!!!

Pabbinn þurfti að mixa þurrmjólk í pela til að brauðfæða barnið. Og mamman fær verk í brjóstið. Þeim megin sem hjartað er.

En ég ætla að halda áfram að mæta á kóræfingar. Með hjartaverk á miðvikudagskvöldum. Pabbinn reddar þessu með pela og Vera verður bara að læra á lífið á kórkvöldum. Svona verður það. Því ég veit að í fyrramálið vaknar hún glöð og sæl og brosir fyrirgefningarbrosi framan í mömmuna með móralinn.

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker