<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, maí 22, 2004

Saumaklúbbsdjamm Gallup 

Sit hér þreytt og óléttuþunn eftir gott "djamm" í gær. Við stelpurnar í Gallup saumóinum héldum saman grillpartý og meððí fram á nótt hér á Hverfisgötunni í gærkvöldi. Og það var svona líka vel heppnað og skemmtilegt. Enda með eindæmum skemmtilegt fólk þessir Galluparar. Þetta er orðið að hefð hjá okkur stelpunum að halda svona grill, 2x á ári, í byrjun sumars og um/eftir jól. Í gær var svo sumargrillveislan, nema hvað að ég stóð úti í úlpu að grilla í grenjandi rigningu. Já, Ísland býður upp á svo marga skemmtilega óvænta atburði... En maturinn grillaðist og heppnaðist sem best verður á kosið.

Við vorum 9 stelpur úr klúbbnum, en það vantar Ellu Dóru sem spókar sig um í CA USA um þessar mundir og hana Sóleyju sem er nýbökuð flott mamma og komst ekki. Þeirra var að sjálfsögðu sárt saknað. Ég segi ekki að það hafi bætt Ellu og Sóleyjarmissinn upp en í partýið mættu 3 boðflennur sem gerðu þetta kvöld saumósins afar eftirminnilegt og skemmtilegt og krydduðu upp á kvöldið. Þrír aðaltöffararnir úr Gallup mættu í partýið og fengu að sjálfsögðu að vera með. Og það var svo skemmtilegt að fá þá og kynnast feminísku saumaklúbbshliðinni á þeim kauðum. Það var að vísu lítið bróderað og saumað þetta kvöld en því mun meira etið, drukkið og leikið sér. Strákarnir fóru svo síðastir heim, að vonum ánægðir með saumaklúbbsdjammið sitt. Ég held þeir hafi sannað sig þetta kvöld, því þeir voru í þvílíku stuði og við stelpurnar flissuðum eins og smástelpur af bröndurunum þeirra. Tíhíhí. Ég held svei mér þá bara að þeir fái kannski einhvern tímann að koma aftur ef þeir halda áfram að vera svona sætir og krúttlegir.

Ég á enn eftir að taka til. Oh það er svo leiðinlegt. Bara neeenni því ekki. En ég held að öll glösin í húsinu hafi verið notuð undir Mojito, rauðvín, bjór, breezer og ég veit ekki hvað og hvað. Og vá hvað mig langaði bara að gleyma kúlunni um stund og detta ærlega íða. En í staðinn bældi ég niður löngunina, fékk mér hálft glas af rauðvíni sem ég þefaði meira af en drakk, og fór í hlutverk dannaðrar húsmóður og þjónaði skemmtilega fullu liðinu sem best ég kunni.

Já, svona er hlutverk manns að breytast....!


Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker