<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, janúar 11, 2004

Bella Italia 

Vorum að koma af veitingastaðnum Ítalíu, búin að gúffa í okkur bestu pizzum bæjarins, Quattro stagione og Americana. Höfðum ekki farið á Ítalíu í langan tíma en áður fyrr vorum við fastir gestir. Og það er alltaf jafn æðislegt að sitja þarna og borða. Viggi var sko yfirþjónn þarna í gamla daga og þá mætti maður í mat svona tvisvar í viku. Svo eftir að Viggi hætti þá hélt Ítalía áfram að vera staðurinn "okkar".

Það er yndislegt að koma þarna á sunnudagskvöldum, en þá er hann Leone iðulega að spila og syngja. Leone er s.s. ítali sem byrjaði að vinna á Ítalíu sem pizzugerðarmaður en fór svo síðar meir að syngja og spila á gítar ítölsk lög fyrir matargesti. Og hann er svakalega flottur. Sjarmerar mann alveg upp úr skónum. Ég gleymdi næstum því að borða af því hann tók mig svo með í söngnum. Veitingastaðurinn er lítill og Leone er í svo mikilli nálægð og tekur mann alveg með sér.

Ítalskan er líka svo seiðandi tungumál. Ég hef alltaf elskað ítölskuna. Sérstaklega eftir að ég lærði að babbla hana ágætlega úti í suður Sviss í den. Lærði að tala ítölsku þegar ég var að vinna á píanó bar eitt gott sumar 18 ára gömul úti í ítölskumælandi Sviss. Kunni ekkert til að byrja með, skildi bara "coca cola" og "fanta" og "gin tonic" inn á milli allra hinna orðanna þegar gestirnir pöntuðu sér drykki. Svo fór maður að skilja orðin í kring og samhengið. Lærði sem sagt það sem ég kann af fullum ítölskum bargestum (...mest karlkyns) sem reyndu stöðugt að sjarmera mig með sér annað hvort í spagettí, í siglingu út á bátinn þeirra, upp í fjallakofann þeirra, á ströndina með þeim... og you name it. Já, þarna var ég, rauðhausinn, kölluð "bionda" (var víst ljóshærð í þeirra augum!) af ítölsku sjarmörunum og var þvílíkt hot. Þeim var alveg nákvæmlega sama þótt Viggi væri að vinna hinu megin við vegginn á sama hóteli, ég var á barnum og hann að þjóna inni í matsal! Skipti þá litlu máli. Ég lærði að segja nei við þá - en notfærði mér samt samræðurnar í að læra ítölskuna :)
Þetta var skemmtilegt sumar.

En aðalástæðan fyrir því að við fórum á Ítalíu fyrr í kvöld var að Harpa og Gunni vinir okkar eru að fara að gifta sig í sumar og ég (veislustjórinn stolti) og Viggi stungum upp á því að Leone myndi syngja í kirkjunni hjá þeim. Þannig við tókum Hörpu með okkur (Gunni er fjarri góðu gamni úti í Saudí að fljúga) til að leyfa henni að heyra. Og hún dáleiddist á stundinni, eins og við.

Ég hef nú misst niður nánast alla ítölskuna þótt ég skilji enn slatta. En ég er svooo skotin í þessu tungumáli. Það er svo hljómfagurt og flottur ryþmi í því. Það er ástæða fyrir því að langflestar óperur eru á ítölsku, virkar einfaldlega flottast. En ég fékk sendan bækling frá Tómstundaskólanum Mími um daginn og hef ákveðið að taka ítölskunámskeið þar þótt síðar verði og rifja upp gamla takta.

Si, devo imparare di piu italiano.....
Tanto amore a tutti.
Ciao,
(hljóma ég ekki sexí??)

Comments: Skrifa ummæli

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker